Skíðareglur

Tíu reglur Alþjóðaskíðasambandsins (FIS) - Undirsíða í vinnslu

Öllum skíða og brettamönnum ber að fylgja svokölluðum skíðareglum og við alvarleg brot á þeim ber að vísa gestum af svæðunum.

1. Tillitssemi

Skíða- eða snjóbrettamaður skal hegða sér á þann hátt að hann stofni ekki öðrum í hættu, valdi óþægindum eða skaða.

2. Stjórn á hraða

Skíða- eða snjóbrettamaður skal ávallt hafa fullt vald á hraðanum. Hann skal ekki fara hraðar en geta hans leyfir og aðstæður hverju sinni, svo sem veður, færi og fjöldi í brekkunum.

3. Að velja sér leið

Sá sem kemur niður brekku eða aftan að öðrum skíða- eða brettamönnum skal velja sér leið þannig að hann stofni ekki þeim sem fyrir framan eru í hættu.

4. Framúrtaka

Fara má framúr eða framhjá öðrum skíða- eða snjóbrettamanni fyrir ofan hann eða neðan, hægra eða vinstra megin, að því tilskildu að sá sem farið er framúr eða framhjá hafi allt það svigrúm sem hann þarf.

5. Að fara inn í eða vera á merktri braut

Sá sem fer inn í merkta braut eða leggur aftur af stað eftir að hafa stansað eða sveigt upp á við skal líta vel í kring um sig og ganga úr skugga um að hann stofni hvorki sjálfum sér né öðrum í hættu.

6. Stöðvað í brekku

Skíða- eða snjóbrettamaður skal ekki stansa þar sem braut er þröng eða útsýni takmarkað nema brýna nauðsyn beri til. Ef hann fellur skal hann færa sig úr brautinni eins fljótt og hann getur.

7. Gengið upp eða niður brekku

Skíða- eða snjóbrettamenn sem fara fótgangandi upp eða niður brekku skulu ganga í jaðrinum á merktum brautum.

8. Leiðbeiningar á skiltum

Skíða- eða snjóbrettamenn skulu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum á skiltum sem hafa verið sett upp í brekkunum.

9. Aðstoð

Ef slys ber að höndum skulu allir veita þá aðstoð sem þeir geta.

10. Að gefa sig fram eftir slys

Allir skíða- eða snjóbrettamenn sem verða vitni eða lenda í slysi skulu gefa sig fram án tillits til þess hvort þeir bera ábyrgð á slysinu eða ekki.

Leiðbeiningar fyrir toglyftur

Myndið röð

Vinsamlegast myndið einfalda röð í diskalyftur og ekki taka fram úr. Snjóbrettafólk fer úr aftari bindingunni.

Farið í lyftu

Haldið á stöfunum í ytri hendinni og komið ykkur tímanlega fyrir. Snúið ykkur inn að lyftunni og grípið diskinn með lausri hendi.

Á leiðinni upp

Ekki setjast á diskinn. Standið upprétt, hallið ykkur aðeins upp að og látið lyftuna draga ykkur. Snjóbrettafólk setur lausa fótinn á milli bindinga.

Ekki beygja

Haltu þér í lyftusporinu undir miðjum lyftuvírnum og ekki sviga í lyftunni. Ekki sleppa of snemma þar sem þú getur ógnað öryggi þíns og annarra í lyftunni.

Ef þú dettur

Haldið á stöfunum í ytri hendinni og komið ykkur tímanlega fyrir. Snúið ykkur inn að lyftunni og grípið diskinn með lausri hendi.

Farið úr lyftu

Slepptu disknum beint áfram, ekki til hliðar. Ekki fara of langt. Komdu þér úr lyftusporinu í rétta átt sem fyrst.

Snjótroðarar

Á opnunartíma

Ef snjótroðari þarf að aka um svæðið á opnunartíma skal sýna fyllstu varúð og halda sér í hæfilegri fjarlægð.

Eftir lokun

Öll almenn umferð um skíðasvæðið er óheimil þegar svæðið er lokað, en þá fer fram vinna á troðurum og vélsleðum.

BLÁTT BLIKKLJÓS

Ef blátt ljós blikkar er öll umferð um allt svæðið stranglega bönnuð. Snjótroðari með spilvír úti getur verið banvænn þar sem vírinn getur skotist til án viðvörunar.

Gönguskíði

1. Tillitssemi

Skíðagöngumaður skal ganga þannig að hann stofni ekki öðrum í hættu, valdi óþægindum eða skaða.

2. Ábendingar um göngustefnu og aðferðir

Skíðamaður skal alltaf ganga í þá stefnu sem sýnd er á skiltum við brautina og einungis nota þá aðferð sem þar er sýnd.

3. Val á leiðum

Þar sem er fleiri en ein troðin braut skal velja brautina til hægri. Skíðagöngumenn í hópi skulu ganga í einfaldri röð til hægri í brautinni. Ef frjáls aðferð er notuð skal gengið hægra megin við troðið spor.

4. Framúrtaka

Skíðagöngumaður má fara fram úr öðrum hvort heldur er hægra eða vinstra megin. Þeim sem farið er fram úr ber ekki skylda til að víkja en hann skal þó hleypa hinum fram úr við fyrsta tækifæri.

5. Að mætast

Skíðagöngumenn sem mætast skulu víkja til hægri. Þeir sem fara niður í móti hafa forgang.

6. Stafir

Skíðagöngumaður skal halda stöfunum sem næst sér þegar hann gengur nálægt öðrum.

7. Stjórn á hraða

Skíðagöngumaður skal ávallt, einkum niður brekku, láta hraðann ráðast af eigin færni, veðri og færi og fjölda göngumanna í brautinni. Hann skal halda sig í hæfilegri fjarlægð frá næsta manni. Eigi skíðamaður ekki annars kost skal hann láta sig falla niður til að forðast árekstur.

8. Hindrunarlausar brautir

Skíðagöngumaður sem stöðvar eða fellur skal umsvifalaust fara úr brautinni.

9. Slys

Ef slys ber að höndum er öllum skylt að veita aðstoð.

10. Að gefa sig fram eftir slys

Allir þeir sem verða vitni að eða lenda í slysi, skulu gefa sig fram, án tillits til þess hvort þeir bera ábyrgð á slysinu eða ekki.

Hver sá sem brýtur gegn þessum reglum getur þurft að sæta ábyrgð, lögum samkvæmt

Vinsamlegast athugið

Allur akstur vélsleða og ökutækja utan vega á skíðasvæðunum er stranlega bannaður.
Lausaganga hunda er bönnuð á skíðasvæðunum.
Til skíðasvæðanna heyra einnig þau svæði sem lögð eru undir skíðagöngubrautir.
Njótum hreina loftsins. Reykingar eru bannaðar á skíðasvæðunum.

Mikilvæg atriði

 • Góð tæknileg kunnátta lágmarkar slysahættu – Farið því endilega á skíðanámskeið.
 • Skíði og snjóbretti sem vel hefur verið borið á gera skíðamennskuna auðveldari og skemmtilegri.
 • Notið einungis bindingar af viðurkenndri gerð og prófið þær reglulega.
 • Notið viðurkenndan hjálm.
 • Minnkið hættu á þjófnaði með því að merkja skíði og bretti, læsa þau inni eða setja í vörslu vina og kunningja.
 • Mæsta hætta á að hrasa og detta er á göngusvæðum, bílastæðum og öðrum svæðum sem hálka getur myndast á.
 • Gætið ykkar á skíðum sem kunna að falla úr stólalyftum.
 • Auðveldara er að ná taki á lyftuslánni og halda henni í réttri stöðu ef tekið er lágt á henni.
 • Klæðist góðum skjólfatnaði og látið ykkur hlýna eftir kalda ferð upp í lyftuna.
 • Vindur og hraði auka hættuna á kali.
 • Áfengi er jafn hættulegt í skíðabrekkunum og á þjóðvegunum.
 • Hvílið ykkur ef þið finnið fyrir þreytu.
 • Þreyta eykur slysahættu, reynið því að vera sem best á ykkur komin fyrir upphaf skíðatímabilsins.
 • Gætið sérstakrar varúðar ef börn eða óvanir eru í skðabrekkum. Börn og óvanir eiga til skjótar hreyfingar sem erfitt er að sjá fyrir.
 • Skíðagæsla, starfsfólk í rauðum og hvítum einkennisbúningum, er á svæðinu til að tryggja öryggi ykkar og ánægju af skíðaferðinni.
 • Hafið samband við starfsfólk ef þið verðið viðskilja við einhverja af félögum ykkar á lyftusvæðinu og það mun fúslega aðstoða ykkur við að finna þá.

Brautarmerkingar

Allar brautir eru merktar með táknum og litakóðum sem gefa til kynna mismundandi erfiðleikastig.
Skíðabrautir / Brekkur / Stökkpallar

Svört = Erfið

Rauð = Nokkuð erfið

Blá = Auðveld

Græn = Mjög auðveld

Merkingar á svigbrautum:
Appelsínugul stöng eða grænn/rauður sívalningur eða svipað.

Skíðað með barn í burðarpoka:
Til að geta skíðað með barn í burðarpoka á bakinu þarf viðkomandi að hafa til að bera mikla færni á skíðum. Gerið ykkur grein fyrir hættu á að barnið verði fyrir kali og gætið sérstakrar varúðar þegar farið er í togbrautir og úr þeim. Ekki er heimilt að nota stólalyftur með barn í burðarpoka. Athugið að barnið ætti einnig að vera með hjálm. Sérstakar reglur kunna að gilda á mismunandi stöðum.

Snjóbrettagarðar

Ábendingar sem koma öllum að gagni

 • Veljið brautir og hindranir sem henta hæfnistigi ykkar.
 • Farið rólega af stað og áttið ykkur á aðstæðum á skíðasvæðinu.
 • Sýnið sérstaka varúð ef útsýni er lélegt eða lendingar úr stökkpöllum eru harkalegar.
 • Notið hjálm.
 • Fylgist með hraðanum – Þið skíðið eða ferðist um svæðið á eigin ábyrgð.
 • Hefjið brun efst á svæðinu þaðan sem öll stöðvunarsvæði sjást greinilega.
 • Haldið áfram ferðinni – Ekki stöðva á stöðvunarsvæðum eða þar sem ef til vill sést ekki vel til ykkar.
 • Haldið ykkur á brautinni sem þið völduð og farið ekki á milli brauta.
 • Fylgist vel með – Hafið ávallt í huga eigið öryggi og annara þegar þið rennið um svæðið.
 • Skemmtið ykkur vel!

Reglur um skíðaiðkun og skíðabrautir

Notkun skíðalyftu:

 • Í tvöfaldri lyftu skulu notendur ferðast tveir og tveir, hlið við hlið.
 • Ekki má vera með flaksand trefla, belti eða annan klæðnað sem flækst getur í vélbúnaði lyftunnar.
 • Halda skal á skíðastöfum í ytri hendinni. Horfið yfir innri öxl í átt að slánni þegar farið er í lyftuna og gætið þess að meiða ekki starfsfólk lyftunnar með skíðastöfum.
 • Þeir sem renna sér á snjóbretti verða að hafa annan fótinn frjálsan í biðröðinni við lyftuna þegar farið er í togbraut eða stólalyftu og þegar farið er upp með lyftunni.
 • Ekki er leyfilegt að sviga í lyftuspori á uppleið.
 • Ekki má snúa til hliðar á lyftuslánni.
 • Farið einungis í lyftuna og úr henni á merktum stöðum.
 • Ef þið dettið í lyftusporinu, farið þá strax af svæðinu og skíðið eða gangið af mikilli varúð yfir á næstu merktu skíðabraut, eða gangið/skíðið niður til hliðar við lyftusporið.
 • Sleppið aldrei T-slá eða disk í grennd við lyftumöstur.
 • Þegar farið er úr lyftunni, haldið þá á brott frá henni án tafar.
 • Ekki má renna sér af ásetningi yfir svæði þar sem skíðafólk er að yfirgefa lyftuna.
 • Ekki er heimlt að renna sér eða staldra við á svæðinu milli vendihjóls og þess staðar þar sem lyftan er yfirgefin.
 • Þeir sem eru lágvaxnari en 1.25m mega ekki nota stólalyftu nema í fylgd annars sem er hærri en 1.40m.
 • Ekki má rugga lyftustól.
 • Aldrei má stökkva úr lyftustólum.
 • Aldrei má kasta rusli úr lyftu eða brekkum.
 • Skíðafólki, sem virðist vera undir áhrifum áfengis getur verið meinað að nota lyfturnar.
 • Hverjum þeim sem notar lyftubúnað eða skíðaaðstöðu án gilds skíðakorts getur verið kærður til lögreglu.

Í skíðabrekkunum:

 • Að renna á skíðum er íþrótt sem felur í sér ákveðna hættu.
 • Ógætileg skíðamennska getur leitt af sér bótaskyldu.
 • Eftir að dimmt er orðið og/eða meðan kvöldopnun stendur yfir er aðeins heimilt að skíða niður brekkur í flóðlýstum og/eða opnum skíðabrautum.
 • Stikur með svörtum og gulum röndum gefa til kynna hættu og /eða lokuð svæði.
 • Krosslögð skíði í skíðabraut gefa til kynna að slys hafa orðið.
 • Vinsamlegast tilkynnið starfsfólki ef þið verðið vör við hindranir, hættusvæði eða slys í brekkunum eða lyftunum.
 • Skyndilegar breytingar á snjó eða viðurskilyrðum geta valdið hættu, jafnvel á merktum skíðabrautum.
 • Hafið ávallt stjórn á hraðanum, svo unnt sé að forðast hindranir af hvaða tagi sem er.
 • Öll skíðaiðkun utan merktra brauta er alfarið á ábyrgð þeirra sem hana stunda.
 • Skíðið aldrei einsömul utan merktra brauta.
 • Ekki er heimilt að skíða á lokuðum svæðum eða þar sem aðgangur er takmarkaður.
 • Ekki er heimilt að skíða eða stökkva í lyftusporum.
 • Ekki er heimilt að stunda keppni í bruni niður almennar brekkur.
 • Skíðið ekki of hratt yfir brekkubrún.
 • Skíðið ekki of nærri hindrunum eða búnaði vegna hættu á árekstri.
 • Líta skal á sérlega auðveldar brekkur og skíðabrautir sem svæði fyrir þá sem vilja renna sér á litlum hraða.
 • Svigbrautir, stökkbretti og þess háttar má aðeins setja upp að fengnu leyfi frá til þess bæru starfsfólki.
 • Keppni og keppnisþjálfun verður að fara fram utan svæða sem notuð eru til almennrar skíðaiðkunar.
 • Ekki er heimilt að skíða í brautum sem settar hafa verið upp vegna keppna eða annara sérhæfða viðburða nema að fengnu leyfi.

Almennar öryggisreglur:

 • Kannið ávalt stökkbretti, hálfhringi, grindur o.s.frv. fyrir notkun.
 • Ekki eru greiddar bætur fyrir skíði, snjóbretti eða annan búnað sem glatast eða skemmist.
 • Allur almennur akstur vélsleða er bannaður á eða við skíðasvæði.
 • Umferð gangandi fólks, hunda og hjólreiðafólks er ekki heimil í toglyftum og skíðaleiðum eða í grennd við þær yfir vetrartímann.
 • Óviðkomandi aðilum er óheimilt að vera á ferli á svæðum þar sem eru skíðalyftur og tengdur búnaður nema þegar þau eru opin. Utan þess tíma er litið á þau sem vinnustað starfsfólks sem annast viðhald á lyftum og skíðabrekkum o.s.frv.
 • Vélsleðar, snjótroðarar og önnur faratæki eða búnaður tengdur starfsemi skíðasvæðis kunna að vera á ferð í brekkum á venjulegum opnunartíma. Gæta þarf varúðar í kringum slík tæki.
 • Haldið ykkur í að minnsta kosti 35 metra fjarlægð frá þessum tækjum og búnaði.
 • Hafið gætur á skíðafólki, sem er að hvílast eða á leið upp brekkur, svo og tækjum og búnaði sem kunna að vera á ferð í utanverðum brekkum.

Almennar reglur um notkun skíðalyfta

 • Reglur þessar eru samningsbundnar milli þeira sem nota skíðalyftur og tengda aðstöðu og stjórnenda skíðasvæða.

Gildi aðgangskorta að skíðalyftum:

Dagskort:
Gildir á þeim dögum sem aðgangskortið tilgreinir.
Hálfur dagur:
Gildir á þeim hluta dags sem aðgangskortið tilgreinir.
Vetrarkort:
Venjulegir opnunartími frá upphafi skíðatímabils að vetri fram að tilgreindum lokadegi.
Stundakort:
Venjulegur opnunartími í jafn margar klukkustundir og kortið tilgreinir.

Notkun aðgangskorts:
Öll aðgangskort eru persónubundin og verða ekki framseld öðrum. Unnt er að fella kort úr gildi sem framseld hafa verið öðrum. Notendur verða að vera reiðubúnir til að framvísa persónuskilríkjum og aðgangskorti sé þess óskað af starfsfólki. Ekki er unnt að afhenda ný kort í stað þeirra sem glatast nema gegn framvísun greiðslukvittunar.
Truflun á starfsemi skíðalyftna:
Lyftukort eru ekki endurgreidd venga veðurfarslegra ástæðna.
Ekki er unnt að endurgreiða ónýttan tíma á skíðakortum.
Venjulegt verð fyrir skíðakort getur einnig gilt í upphafi skíðatímabilsins og undir lok þess, jafnvel þótt ekki hafi allar brekkur og lyftur verið teknar í notkun og sumum lyftum kunni að hafa verið lokað vegna lítillar aðsóknar.

Örggisreglur:

Rekstraraðilar skíðalyfta bera ábyrgð á eftirfarandi þáttum:

Að lyftubúnaðurinn og tengd aðstaða uppfylli viðeigandi öryggiskröfur þar á meðal eftirlit og samþykki þar til bærs umsjónaraðila.
Að búnaður og aðstaða séu í samræmi við þær reglur er Vinnueftirlit ríkisins setur rekstraraðila.
Að merktar skíðabrautir séu innan eðlilegra öryggismarka og þeim sé haldið í eins góðu ástandi og veður og landslag leyfa.
Allir notendur verða að fara eftir sérstökum fyrirmælum varðandi skíðalyftur og tengda aðstöðu. Þessi fyrirmæli eru gefin út af hverju skíðasvæði fyrir sig. Brot á öryggisreglum og/eða öðrum fyrirmælum starfsfólks skíðasvæða geta orðið til þess að skíðakort falli þegar í stað úr gildi bótalaust eða að öðrum kosti að notandi verði tímabundið útilokaður frá skíðasvæðinu.

Upplýsingar vaðandi sölu aðgangskorta:

Allir sölustaðir skíðakorta skulu gefa til kynna eftirfarandi atriði:

Gildistíma skíðakortsins og nöfn eða merki þeirra lyfta sem kortið gildir í.
Venjulegan opnunartíma lyftna.
Skilyrði sem sett kunna að vera varðandi notkun lyftanna á vissum tímum.
Eftir því sem unnt er skal gefa til kynna tímabundnar takmarkanir sem í gildi eru um notkun á lyftum og skíðabrekkum sem kortið tekur til. Slíkar takmarkanir kunna að stafa af truflun í þjónustu, skíðakeppni, skertum aðgang að skíðabrautum vegna viðhaldsverkefna, hindrunum, snjóleysi eða slæmum veðurskilyrðum o.s.frv.

Þessar reglur gilda frá og með vetrinum 2008-09
Samtök Skíðasvæða á Íslandi
Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar